Kjaftagelgjur

Það er sérstaklega tvennt sem einkennir þessa fiska. Þeir eru hausstórir og upp úr hausnum gengur þráður eða armur, oft með ljósfæri á endanum. Er hér á ferðinni bakuggi sem breyst hefur í nokkurskonar tálbeitu eða veiðistöng. Flestir þessara fiska halda sig á töluverðu dýpi eða í kring um 1000 metra. Sextán tegundir, sem tilheyra sjö ættum Kjaftagelgja (Lophiiformes) hafa fundist við Ísland en í heiminum eru um 200 tegundir í 15 ættum þekktar og norð-austur atlandshafi finnast 44 tegundir í 13 ættum. Flestir þeirra lifa á miklu dýpi og eru sumir botnfiskar en aðrir miðsjávar fiskar. Kjaftagelgjur þekkjast frá öðrum fiskum á stönginni sem stendur upp úr hausnum. Stöngin er einstakt líffæri, bakuggi sem hefur breyst í veiðarfæri með ljósbúnaði. Í stönginni og endum þráðanna sem kvíslast úr stönginni búa bakteríur sem gefa frá ljós. Fiskarnir geta sveigt veiðistöngina fram og aftur og nota hana til að lokka til sín bráð, sem einkum eru fiskar og krabbadýr. Svona veiðibúnaður kemur sér vel þar sem kjaftagelgjurnar lifa helst á, á 1.000–3.000 m dýpi í kolsvartamyrkri. 

Á myndinni hér að neðan má sjá stöng og ljósfæri lúsífers, en ljósfærin eru hvít á myndinni.

mynd122.jpg

Hjá lúsífer og flestum öðrum kjaftagelgjum fylgja ýmis vandamál við að lifa í myrkviðum hafdjúpum. Eitt vandamálið er að finna maka en það er ekki hægðarleikur í niðamyrkri. Þetta vandamál hafa margar kjaftagelgjur leyst með góðu móti. 


Lausn kjaftagelgja við makaleit felst í því að hængar verða mjög sérhæfðir og færir um að finna hrygnur. Sérhæfnin byggist á óvenju vel þroskuðum þefkirtlum og mjög þroskuðum kynkirtlum. En þessi sérhæfni kostar sitt því að í staðinn vaxa hængarnir nær ekkert og þeir eru óttaleg kríli. En er hængur hefur fundið hrygnu fer fram "gifting" er varir ævilangt og ekki er um skilnað að ræða því hængurinn bítur sig fastann við kvið hrygnunnar. Og á skömmum tíma festist hann varanlega við hana, blóðrásarkerfi þeirra verður sameginlegt og næringu fær hængurinn einungis frá hrygnunni.


Hjá lúsífer eru fullvaxnir hængar ekki nema 4–5 cm langir, en fullvaxnar hrygnur eru jafnan 40–50 cm langar og stundum allt að 70 cm. 

Sædjöfull (Ceratias holboelli) Sædjöflaætt (Ceratiidae)
Sædjöfull er fremur sjaldgæfur við Ísland. Hann lifir á 120 - 1000+ metra dýpi og hefur fundist í í flestum heimsins höfum. Sædjöfull tilheyrir kjaftagelgjum (Lophiiformes) líkt og lúsífer og fleiri djúpsjávarfiskar. Helstu einkenni kjaftagelgja eru veiðistöngin og mikill stærðarmunur á hængum og hrygnum.


Hjá sædjöflum gengur sérhæfni hænga til að makast við hrygnur mjög langt. Hængarnir eru agnarsmá kríli og hafa sjaldan fundist. Þeir eru ekki nema 4-6 cm á lengd, hafa hvorki veiðistöng né tennur og lifa áfastir við gotraufina á hrygnunum. Húð fiskanna er samvaxin, blóðrásin sameiginleg og hrygnan sér alfarið um að afla fæðu. Hlutverk hænganna er því meira eða minna bundið við að frjóvga hrognin. Fullvaxnar sædjöflahrygnur verða 1–1,3 m á lengd.

Lúsífer (Himantolophus groenlandicus) Lúsíferaætt (Himantolophidae)
Þrátt fyrir að finnast í öllum heimsins höfum er Lúsífer fremur sjaldgæfur við Ísland. 
Lúsífer tilheyrir kjaftagelgjum (Peduculati) og hýsir sá ættbálkur afar sérstaka og furðulega djúpsjávarfiska. Þar á meðal eru frenjur (Caulophrynidae), hyrnur (Oneirodidae), sædjöflar (Ceratiidae) og skötuselir (Lophiidae).