Botnfiskar

Hér er slegið saman fjölbreytilegum hópum fiska sem allir eiga það sameginlegt að halda sig mest á eða nálægt botni, eru botnlægir. Þeir geta þó haldið sig á nokkuð mismunandi dýpi, fara þó fæstir mikið niður fyrir 600 metra.
Þessir fiskar halda sig á eða nálægt botninum við fæðuleit og sumir hverjir leggja hrogn sín á botninn eins og steinbítur. Aðrir hrygna sviflægum hrognum sem annað hvort eru í efstu lögum sjávar eins og þorskfiskar eða eru um miðjann sjó eins og hrogn fiska af langhalaætt.

Sprettfiskur (Pholis gunnellus) Sprettfiskaætt (Pholidiae)
Fiskur sem er náskyldur Steinbít. Er allajafn til lifandi á safninu og er staðsettur í sjávarbúrinu. Lifir á grunnsævi einkum innan um þara og þang og finnst oft alveg uppi í fjöruborði. Lifir þar á marflóm og ýmsum öðrum smádýrum en einnig leggur hann hræ annara dýra sér til munns. Sprettfiskurinn eða Skerjasteinbítur ein og hann heitir líka er svo aftur mikilvæg fæða einkum fugla eins og máva og svartfugla einkum Teistu.

Þorskur (Gadus morhua) Þorskaætt (Gadidae)
Er helsti nytjafiskur íslendinga. Tilheyrir þorskaætt sem ásamt Langhala- Lýsinga- og Móruættum skipa ættbálk þorskfiska.

Þorskur er straumlínulanga og rennilegur fiskur, haus og kjaftstór með skeggþráð á höku. Litur er nokkuð breytilegur eftir aldri og umhverfi en oftast þó gulgrár á baki og hliðum og með dökkum smáblettum. Bakuggar eru þrír og raufaruggar tveir, eyruggar eru stórir og liggja aftan við kviðuggana. Rákin er mjög greinileg.

Þorskurin heldur sig mest nálægt botni en hann finnst á grunnsævi og niður á 600 metra dýpi. Fæða hans er mjög fjölbeytt, í þorskmaga hafa fundist flestir hópar dýra s.s. skeljar, krabbar, skrápdýr (ígulker og krossfiskar), leifar fugla (lundi og svartfuglar) en mikilvæasta fæðan er þó fiskar, einkum loðna og síld ásamt rækju.

Þorskurinn er útbreiddur um allt Norður-Atlantshaf. Hann skiptist í nokkra stofna eftir hafsvæðum og landsvæðum og eru stofnarnir oft mismunandi í vexti, kynþroskaaldri og útliti.

Helstu hrygningarstöðvar þorsks eru milli Dyrhólaeyjar og Reykjaness. Þorskurinn hrygnir á strandgrunni nálægt botni eða miðsævis í hlýsjó (5-7 °C) á tímabilinu mars-apríl.Eftir frjóvgun svífa eggin upp undir sjávarborð og reka með hafstraumi og vindi vestur fyrir land. Eftir 15-20 daga klekst lirfa úr hrogninu og hefur hún poka á kviðnum sem í er forðanæring. Forðanæringin dugar seiðunum skammt, ekki nema um 5 daga, en þá verða seiðin að afla sér ætis sjálf. Til að byrja með lifa seiðin mest á örsmáum þörungum og frumdýrum.

Við 3ja mánaða aldur fara svifseiðin að leita til botns. Fram að því hafa seiðin rekið norður með vesturströndinni og sum hver austur með Norðurlandi. Eftir að seiðin taka upp botnlíf halda þau sennilega að mestu kyrru fyrir og alast upp á staðnum. Samhliða botnlífi og vaxandi stærð skipta seiðin úr þörungaáti yfir í át á krabbadýrum og smáfiski. Þegar þorskurinn er orðinn um 50 cm langur lifir hann að miklu leyti á loðnu.

Þorskur við Ísland verður kynþroska 4–9 ára gamall (50–100 cm langur). Við kynþroska leitar hann frá uppeldisstöðum til hrygningarstöðva. Eftir að kynþroska er náð hrygnir þorskurinn árlega. Elstu þorskar verða um 25 ára gamlir. Frjósemi þorsks er mikil. Eggjafjöldi í 100 cm langri hrygnu er um 4,3 milljónir. Á móti kemur að skakkaföll eru mikil framan af ævi. Talið er að dauðsföll á hrogna- og svifseiðastigi sé 90-95%.

Marhnútur (Myoxocephalus scorpius) Marhnútaætt (Cottidae)
Marhnúturinn tilheyrir marhnútaætt (Cottidae) sem aftur tilheyrir ættbálki er kallast Brynvangar (Scleroparei eða Scorpaeniformes). Til Brynvanga teljast auk Marhnúta t.d. Karfar og Hrognkelsi. Fiskar í Marhnútaætt eru frekar smáir og afturmjóir fiskar með stórann haus og kjaft og ferkar stóreygðir. Í ættinni finnast 16 tegundir í 9 ætthvíslum en hér við land finnast 6 tegundir í 6 ætthvíslum. Þessar tegundir eru t.d. Krækill, Fuðriskill, Þrömmungur og Litli marhnútur.