Slorpungar og strýtuþörungar

Í anddyri Náttúrufræðistofunnar eru nú til sýnis lifandi slorpungar og steingervingar af frændum þeirra, strýtuþörungum. Nafngiftirnar vekja eflaust nokkra eftirtekt, en um er að ræða sambýli svokallaðra blágrænna baktería.
Strýtuþörungar eru meðal elstu og frumstæðustu lífvera jarðarinnar en blómaskeið þeirra var á forkambríum, tímabili sem spannar 3.800-545 milljón ár fyrir tímatal okkar. Í dag eru þeir fágætir en finnast þó á stöku stað.
Slorpungar, eins og þeir sem sjást á meðfylgjandi mynd, eru hins vegar nokkuð algengir m.a. hér á landi. Oftast finnast þeir í ám og vötnum en sumar tegundir finnast einnig uppi á landi þar sem raka gætir. Stærð slorpunga er misjöfn, allt frá títiprjónshaus og upp í þokkalega kartöflu. Litur þeirra er oftast eitthvert afbrigði af grænu en getur verið frá appelsínugulum yfir í nær svart.
Strýtuþörungar – frumstæðustu og elstu lífverur jarðar!
Strýtuþörungar (enska: stromatolite) eru einkar athyglisverðar, lagskiptar lífverur gerðar úr örverulagi að utanverðu og setlögum að innanverðu. Í örverulaginu eru oftast kúlulaga blágrænugerlar (Cyanobacteria) og mynda þeir sambýli, slímkennda þekju sem fangar setagnir grunnt í sjó eða ferskvatni þar sem þörungarnir lifa. Setagnirnar hlaðast upp undir örverulaginu og til verður lagskipt, steingerð bygging rík af kalki sem stækkar með tímanum.
Strýtuþörungar og fleiri blágrænugerlar teljast til fyrstu lífvera sem þróuðust á jörðinni. Á meðal þeirra er að finna elstu steingervinga jarðar, allt að 3,5 milljarða ára gamla. Blómaskeið strýtuþörunga var á Forkambríum tímabilinu (árabilið 3.800–545 milljón ár fyrir krist). Núlifandi strýtuþörungar eru mjög fágætir en kunnir fundarstaðir eru í Ástralíu, Brasílíu og Nevada í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir að blágrænugerlar séu ekki miklir fyrir að sjá eigum við þeim samt margt að þakka. Vegna ljóstillífunar á meðal þeirra er til dæmis talið að súrefni hafi safnast fyrir á jörðinni. Þeir eru einnig taldir vera forverar plantna á jörðinni. Grænukorn planta sem sjá um ljóstillífun eru í taldir afkomendur blágrænugerla sem lifa innan í plöntufrumunum.
Á myndinni hér að neðan má sjá lagskiptan steingerving strýtuþörungs
20111213140855422660.jpg
Slorpungar
Strýtuþörungar eru ekki til á Íslandi en hins vegar lifa hér margar aðrar tegundir af blágrænugerlum. Þá er að finna í ferskvatni, sjó og jafnvel á þurrlendi. Á meðal blágrænugerla í ferskvatni hér á landi eru svokallaðir blákýlingar af tegundinni Nostoc pruniforme. Blákýlingarnir eru kúlulaga, á stærð við kirsuber eða kartöflu, allt að 4 cm í þvermál, og finnast í nær öllum regnbogans litum. Blákýlingar af tegundinni Nostoc pruniforme kallast ýmsum íslenskum nöfnum, þar á meðal slorpungar og vatnsaugu. Í straumvötnum finnst tegundin Nostoc sphaericum sem kölluð hefur verið árber.
Margvísleg þjóðtrú er tengd slorpungum. Þorvaldur Thoroddsen jarðfræðingur (1855–1921) getur þess m.a. í Ferðabók sinni (Ferðabók. Skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882–1898, Kmh. 1913–1915) að á 17. og 18. öld hafi menn trúað því „að mýið kæmi úr pungunum þessum“, en það hefur verið hrakið fyrir all löngu.
Á myndinni að neðan sjást nokkrir slorpungar. Sá minnsti er á stærð við bláber.
20111213140853872677.jpg
Heimildir:
The Virtual Fossil Museum. http://www.fossilmuseum.net/Paleobiology/Preambrian_Paleobiology.htm. Skoðað 28.9.2011.
Wikipedia. http://en.wikipedia.org/wiki/Stromatolite#cite_note-4. Skoðað 28.9.2011.
Helgi Hallgrímsson. 1990. Veröldin í vatninu. Námsgagnastofnun, Reykjavík. 231 bls.
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=55302 Skoðað þann 13.12.2011

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

14
sep

14
sep

12
okt

12
okt

23
okt

09
nóv

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR

Consent Management Platform by Real Cookie Banner